Mixtura - Stelpur filma

Sextíu og sex 13 - 14 ára stelpur úr 11 grunnskólum í Reykjavík eru þessa vikuna að læra kvikmyndagerð út í Norræna húsinu og fá kennslu af þeim allra bestu í íslenskum kvikmyndabransa. Þær ætla að gera stuttmyndir sem verða sýndar í kvikmyndahúsi í lok september fyrir fjölskyldu og vini. Námskeiðið er samstarfsverkefni Mixtúru, margmiðlunarvers skóla- og frístundasviðs og Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF.


Kennarar eru Áslaug Einarsdóttir stofnandi Stelpur rokka!, Baltasar Kormákur leikstjóri, Elísabet Ronaldsdóttir klippari, Ísold Uggadóttir leikstjóri og Margrét Örnólfsdóttir leikstjóri. Erla Stefánsdóttir, frá Mixtúru, margmiðlunarveri skóla- og frístundasviðs, sér um tæknilega kennslu og Fríða Rós Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Stelpur filma!, verður með jafnréttisfræðslu. Einnig munu óvæntir gestir mæta á námskeiðið. Sjá myndband frá fyrsta degi námskeiðsins.

Stelpur filma! er haldið í fyrsta skipti í ár í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli kvenna á Íslandi en er hugsað til framtíðar. Námskeiðið er liður í því að rétta af þá kynjaskekkju sem skekkir kvikmyndagerð á Íslandi. Margir samverkandi þættir gera það að verkum að stelpur eru ólíklegri til að prófa sig áfram í kvikmyndagerð og láta rödd sína heyrast. Með Stelpur filma! er stuðlað að því að leiðrétta þennan kynjahalla og bjóða upp á rými þar sem stelpur eru hvattar til kvikmyndagerðar með því að fá næði til að þroska sína hæfileika og spegla sig í sterkum fyrirmyndum, spreyta sig í kvikmyndagerð, kynnast öðrum stelpum og prófa að búa til bíó.

Sjá myndband frá öðrum og þriðja degi námskeiðsins

Stelpur filma! byggir á hugmyndafræði rokkbúðanna Stelpur rokka! sem stofnaðar voru 2012 og má segja að þeirra námskeið hafi slegið í gegn. Hugmyndafræðin byggir á að nánast eingöngu konur koma að námskeiðinu og er með því verið að skapa sem öruggasta rými sem kostur er fyrir stelpur að skapa og tjá sig. Á Stelpur filma! er ekkert umburðarlyndi fyrir hvers kyns ofbeldi og fordómum og jafnframt er enginn dæmdur út frá frammistöðu, kynvitund, bakgrunni, uppruna, fjárhagslegri stöðu eða öðrum breytum. Á námskeiðinu ríkir mistakafrelsi þar sem litið er á mistök sem tækifæri til að læra að gera betur.

Almenningi verður gefinn kostur á að sjá myndirnar á RIFF hátíðinni í Norræna húsinu 3. og 4. október klukkan 13 og verður aðgangur ókeypis.

Mixtúra

Vefur Margmiðlunarvers Skóla- og Frístundasviðs. 
Margmiðlunarverið er staðsett í
Langholtsskóla við Holtaveg 23, 104 Reykjavík